A A A

Fyrsta harmoníkan

Þegar Gunnar, bróðir Baldurs, var orðinn stálpaður unglingur og kominn á 19 ára aldurinn keypti hann harmoníku vegna þess hve gaman hann hafði af tónlist og langaði til að spila á nikkuna. Á þessum tíma var Gunnar að vinna við vegavinnu og því oft fjarverandi, sérstaklega um virka daga. Eitthvað hefur Baldur smitast af þessum áhuga bróðurs síns, því hann stalst reglulega í nikkuna til að spila og æfa sig.


Harmoníkan sem Gunnar keypti var lítil, en hún hentaði Baldri vel, enda einungis á 12 ári. Síðla þetta sumar kom Gunnar heim í helgafrí og bauð Baldri að hann mætti eiga nikkuna, ef hann myndi halda uppi fjörinu fyrir sig og sína vini það kvöldið. Þrátt fyrir að Baldur væri feiminn, sló hann til, og partý var haldið í einu herbergjana. Þar var spilað langt fram eftir nóttu og dansað og sungið í takt við spilamennsku Baldurs.


Gunnar stóð við orð sín og gaf Baldri harmoníkuna fyrir spilamennskuna og í kjölfarið var leikurinn endurtekinn mörgum sinnum, enda þótti gott að hafa færan harmoníkuspilara á heimilinu til að halda uppi fjörinu.


Ekki var nóg um að Baldur spilaði fyrir Gunnar bróður sinn, því að æfingar fóru oftar en ekki fram í eldhúsinu, þar sem Baldur þandi nikkuna, og Kalli, Ásta og móðir þeirra sungu og dönsuðu með. Fjárfest var í söngtextabók, og lærði Baldur þannig lögin eitt af öðru með aðstoð fjölskyldunnar, sem söng lögin. 12 ára gamall fór Baldur síðan að spila í Félagsheimilinu í Hnífsdal ásamt Kalla Tomm, sem þá spilaði á trommur og Baldur á nikkuna.


Einum 2 árum síðar fór Gunnar á síld og keypti sér aðra harmoníku, nú í fullri stærð, enda var áhuginn hjá honum enn til staðar. Ekki gafst tími til að læra á nikkuna, frekar en þá fyrri, vegna vinnu og Gunnar gefur Baldri nýju harmoníkuna, rétt eins og þá fyrri. Í stað þess að Gunnar léti drauminn um að læra spilamennsku falla í gleymd, þá upplifði hann drauminn í gegnum Baldur, sem reyndist auðvelt að læra spilamennskuna.Þrátt fyrir að mikið væri æft í húsinu, bæði í eldhúsi, stofu og herbergi, sagði Geirmundur aldrei orð, kvartaði aldrei yfir spilamennskunni. Þess í stað virtist hann hafa lúmskt gaman af fjölskylduskemmtuninni, verandi laglaus sjálfur, þrátt fyrir að þurfa að mæta eldsnemma í vinnu daginn eftir. Á þessum tíma var Karl, bróðir Baldurs, einnig farinn að spila, þá á klarinett, og tók hann mikinn þátt í æfingum Baldurs. Það má því segja sem svo að Baldur hafi byrjað spilamennsku sína með því að stelast í harmoníku bróður síns og fengið aðstoð allrar fjölskyldunnar við að læra lögin.

 

Vefumsjón