A A A

Böllin á Snæfellsnesi

Ásta, systir Baldurs, flytur til Ólafsvíkur fljótlega eftir að hún stofnar til fjölskyldu. Í þá tíð hét hljómsveitin B.G. og Ingibjörg og spilaði hljómsveitin vítt og breitt um allt landið, sérstaklega á sumrin, enda sumir meðlimir í skóla á þessum tíma.

Þegar hljómsveitin hélt böll á Snæfellsnesi voru oftast haldin 2 eða 3 böll, enda ferðalög í lengri kantinum með rútubílum á malarvegum. Áður en hljómsveitin lagði í ferðalagið var Ásta fengin til að dreifa plakötum um allar verslanir og bensínstöðvar í Ólafsvík og nágrenni, þar sem böllin voru haldin. Það má með sanni segja að um sveitunga hafi gripið hálfgert Bítlaæði, eða BG æði, þegar hljómsveitin kom.

Meðlimir hljómsveitarinnar, bílstjóri, makar og aðrir fylgifiskar fengu ávallt gistingu hjá Ástu þegar ball var haldið í Ólafsvík. Þá var slegið upp jólaveislu, með hangikjöti og öllu tilheyrandi og allir gistu í heimahúsi hennar. Það var stundum þröngt á þingi þegar makar og vinir komu með, enda slagaði fjöldinn stundum í 20 manns. Þar sem íbúðin var einungis 80 fm var dýnum dreift um alla íbúð og öll herbergi, sófar og annað sem hægt var að sofa á, var notað. Gifurleg stemning myndaðist fyrir og eftir ball, enda var heimilið eins og fjörugasta farfuglaheimili.

Stundum kom Gunnar bróðir úr Reykjavík með Hiddu og sína vini og varð þá oft kátt í höllinni, enda bæði rómuð fyrir að kunna að skemmta sér. Helgi heitinn var þekktur fyrir dansinn sinn, enda kallaður Helgi táfjöri!

Eitt sinn ætlaði Ásta að vera rosalega fín fyrir eina af fjölmörgu heimsóknum hljómsveitarinnar. Hin eðlilegi hárlitur hennar var ljós og ætlaði hún að lita á sér hárið brúnt. Ekki tókst nú betur til en svo að hárliturinn varð biksvartur. Þar sem skammur tími var til stefnu fyrir ballið, reyndi Ásta margítrekað að þvo á sér hárið, en án árangurs. Það fór því svo að hún endaði svarthærð á ballinu - en bræðurnir tóku ekki eftir neinu!

 

Vefumsjón